Rannsóknarsvið
Mitt upphaflega rannsóknarsvið snerist um frumspeki og hugspeki en undanfarin ár hef ég fengist við félagslega heimspeki. Ég hef sérstaklega áhuga á femínískri heimspeki, hagnýtri siðfræði og félagslegri verufræði. Sérstök hugðarefni mín þessa dagana eru félagsleg valdatengsl og hvatar að baki samfélagshreyfingum, mennskuhugtakið og hlutverk þess í siðferðilegri hugsun og ýmislegt sem varðar #MeToo-hreyfinguna. Ég hef líka áhuga á þekkingarlegu ranglæti, gaslýsingu og öðrum formum þvingunar og afvegaleiðingar, efnahagslegum ójöfnuði og stöðu kvenna í vísindum, svo fátt eitt sé nefnt af mínum aðeins of mörgu áhugamálum.
Flæðandi siðfræði: Femínísk siðfræði og #MeToo
Verkefnið Flæðandi siðfræði: Femínísk siðfræði og #MeToo er styrkt af Rannsóknasjóði 2023 til 2026. Það felur í sér rannsókn á áhrifum #MeToo-hreyfingarinnar á siðferðilega hugsun og á ýmsum siðfræðilegum málefnum sem tengjast þeim málefnum sem #MeToo-hreyfingin snýr að.
Veruleiki peninga
Ég stýrði verkefninu Veruleiki peninga sem var styrkt af Rannsóknasjóði (Rannís) árin 2015 til 2017. Bókin mín The Reality of Money: The Metaphysics of Financial Value er afurð þessa verkefnis og kom út í október 2018 hjá Rowman & Littlefield International. Hún fjallar um verufræði peninga en endurspeglar um leið ýmsar félagslegar afleiðingar og álitamál sem tengjast peningum og notkun þeirra.
Femínísk heimspeki og umbreyting heimspekinnar
Ég tók þátt í verkefninu Femínísk heimspeki og umbreyting heimspekinnar sem styrkt var af Rannsóknasjóði (Rannís) árin 2015 til 2017. Verkefnið var helgað því að sýna hvernig femínísk heimspeki getur verið umbreytingarafl innan heimspekinnar.