Eyja M. Brynjarsdóttir
Eyja M. Brynjarsdóttir
Medieval_Jain_temple_Anekantavada_doctrine_artwork.jpg

Rannsóknir

Rannsóknarsvið

Á mismunandi tímum hef ég stundað rannsóknir á eftirfarandi sviðum: Frumspeki (verufræði eiginleika, hlutlægni og huglægni), hugspeki (skynjun), femínísk heimspeki (frumspeki kyns, Mary Wollstonecraft, femínísk þekkingarfræði), vísindaheimspeki (hluthyggja og andstæður hennar). Nýjustu rannsóknir mínar eru innan félagslegrar verufræði og félagslegrar þekkingarfræði sem og femínískrar heimspeki. Ég er mikið að skoða ýmislegt sem hefur að gera með félagsleg valdatengsl og hvatana að baki grasrótarhreyfingum, þekkingarlegt ranglæti, gasljóstrun og önnur form þvingunar og afvegaleiðingar, efnahagslegan ójöfnuð, hvernig manneskjur eru flokkaðar, afmennskun, stöðu kvenna í vísindum og akademíu og ýmislegt sem tengist #MeToo-hreyfingunni, svo fátt eitt sé nefnt af mínum aðeins of mörgu áhugamálum.


Veruleiki peninga

Ég stýrði verkefninu Veruleiki peninga sem var styrkt af Rannsóknasjóði (Rannís) árin 2015 til 2017. Bókin mín The Reality of Money: The Metaphysics of Financial Value er afurð þessa verkefnis og kom út í október 2018 hjá Rowman & Littlefield International. Hún fjallar um verufræði peninga en endurspeglar um leið ýmsar félagslegar afleiðingar og álitamál sem tengjast peningum og notkun þeirra.


Femínísk heimspeki og umbreyting heimspekinnar

Ég tók þátt í verkefninu Femínísk heimspeki og umbreyting heimspekinnar sem styrkt var af Rannsóknasjóði (Rannís) árin 2015 til 2017. Verkefnið var helgað því að sýna hvernig femínísk heimspeki getur verið umbreytingarafl innan heimspekinnar.